Nám

by FÍSF

Snyrtifræði er löggild iðngrein. Menntun snyrtifræðinga tryggir neytendum faglega ráðgjöf og sérhæfða meðhöndlun andlits og líkama með heilbrigði og vellíðan í huga. 

Snyrtifræðingar snyrta meðal annars hendur og fætur og þeir lita, plokka og farða einstaklinga fyrir öll tækifæri. Að auki bjóða þeir upp á fjölda sérhæfðra meðferða og veita ráðgjöf um notkun á snyrtivörum.

Snyrtifræðingar meðhöndla ýmis húðvandamál ásamt því að viðhalda eðlilegri starfsemi heilbrigðrar húðar. Eftir nákvæma greiningu húðar sérsníða þeir meðferð að þörfum hvers og eins.

Námsleiðir

Nám til sveinsprófs

Um nám í snyrtifræði má lesa í námskrá Menntamálaráðuneytisins: 

“Nám og kennsla í snyrtifræði miðast við að veita almenna, faglega undirstöðumenntun í greininni, auka færni nemenda í meðferð snyrtivara og beitingu áhalda og tækja. Leitast er við að þjálfa sjálfstæð vinnubrögð nemenda og auka hæfileika og getu þeirra til samvinnu við aðra. Þá er stefnt að því að nemendur auki færni sína til þess að standast kröfur iðngreina um nákvæmni, áreiðanleika og fagleg vinnubrögð. Snyrtifræðingar vinna í mikilli nálægð við viðskiptavini sína og því er mikilvægt að þjálfa samskiptafærni nemenda og getu þeirra til þess að öðlast skilning á þörfum viðskiptavina. Í námskrá snyrtibrautar er lögð áhersla á að rækta með nemendum jákvætt viðhorf til gæða í þjónustu. Vinnustaðanám er skipulagt á þann hátt að um er að ræða sjálfstæða þjálfun úti í fyrirtækjum. Skipulag þess tekur mið af lokamarkmiðum námsins. Markmið vinnustaðanámsins er m.a. að þjálfa nemandann til þess að takast á við sífellt flóknari viðfangsefni þar sem saman fara vinnuhraði, fagleg vinnubrögð, nákvæmni, færni og kröfur um að fyllstu öryggisþáttum sé fullnægt. Krafan um aukin gæði og þjónustu fyrirtækja er stöðug og vaxandi og því er það mikilvægt að fagfólk í snyrtifræði hugi vel að möguleikum sínum til símenntunar. ” 

Um skipulag náms í snyrtifræði má lesa á vef Fjölbrautarskólans í Breiðholti: 

“Nám á snyrtibraut er 255 eininga nám á þriðja hæfniþrepi og tekur að jafnaði fjögur ár. Námið skiptist í bóklegt og verklegt nám í skóla 195 einingar og 60 eininga starfsþjálfun í 9 mánuði. Námið undirbýr nemendur undir starf snyrtifræðings og er mikil áhersla lögð á mannleg samskipti, nærgætni, nákvæmni og stundvísi. Náminu á brautinni er jafnframt ætlað að veita nemendum góða, almenna undirstöðuþekkingu í bóklegum greinum. Að öllum áföngum loknum, bæði í skóla og starfsþjálfun á snyrtistofu sækir nemandi um að taka sveinspróf sem veitir starfsheitið snyrtifræðingur.”

Nám til meistaraprófs

Um iðnmeistaranám í meistaraskólanum má lesa á vef Tækniskólans: 

“Markmið námsins er að veita þeim sem lokið hafa sveins­prófi fræðslu og þjálfun til að stjórna verkum, kenna nýliðum fagleg vinnu­brögð, örygg­is­reglur og iðnfræði. Eftir nám getur meistari ráðið til sín sveina í grein­inni og rekið eigið fyr­ir­tæki.”

Viðbótarnám fyrir iðnmeistara 

Um grunndiplómu fyrir iðnmeistara í kennslufræði má lesa á vef Háskóla Íslands: 

“Kennslufræði fyrir iðnmeistara er fyrir þá sem hafa áhuga á að kenna sitt fag í framhaldsskóla. Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu, skilning og færni til að starfa sem starfsmenntakennarar.”

Skólar