Haldin var kynning á félaginu fyrir nema í starfsþjálfun og þar á eftir var Dr. Hörður G. Kristinnsson með fyrlrlestur.

Hörður er rannsóknastjóri Matís og einn af stofnendum Marinox. Hann stýrir einnig Líftækni og lífefnasviði Matís og er með aðjúnkt prófessorsstöður við Háskólann í Flórída og Háskóla Íslands. Hörður bjó og starfaði lengi í Bandaríkjunum og hefur rannsakað lífefni og lífvirk efni tengt hafinu síðan 1996.

Í gegnum tíðina hefur Hörður og hans samstarfsfólk þróað fjöldann allan af aðferðum til að einangra og vinna verðmæt virk efni úr sjávarlífverum, sem hefur skilað sér í fimm einkaleyfum og um 80 vísindagreinum, bókum og bókarköflum. Hörður leiðir og hefur leitt stór alþjóðleg verkefni á þessu sviði, og síðustu ár lagt mikla áherslu á okkar vannýttu auðlind sem er þangið allt í kringum Ísland. Í þanginu felast mikil tækifæri og verðmæti sem hann og hans samstarfsfólk vinna hörðum höndum að koma í vörur og verðmæti.

Marinox ehf. er ungt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og framleiðslu á lífvirkum efnum úr sjávarþörungum og afurðum sem innihalda slík efni. Fyrsta vörulína fyrirtækisins, UNA skincare™ húðvörurnar, komu á markað fyrir rúmu ári.
Rannsóknar- og þróunarvinna vörulínunnar fór fram í náinni samvinnu við Matís, bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki. UNA skincare húðvörurnar innihalda einstök lífvirk efni sem unnin eru úr íslenskum sjávarþörungum en vísindamenn Marinox hafa þróað einstæða aðferð til að einangra og framleiða virk efni úr þessari vannýttu íslensku auðlind – aðferð sem tryggir hámarksvirkni efnanna.

Categories: Fréttir