Snyrtistofum án tilskilinna réttinda hefur farið fjölgandi

by FÍSF

„Við fáum töluvert af ábendingum, bæði frá faglærðu fólki og almennum neytendum. Við tökum því opnum örmum og gerum okkar besta til þess að koma því í réttan farveg,“ segir Rebekka Einarsdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga, FÍS, í frétt Veroniku Steinunnar Magnúsdóttur í Morgunblaðinu um að snyrtistofum án tilskilinna réttinda hafi farið fjölgandi á síðustu árum en snyrtifræði er lögvernduð iðngrein og því óheimilt að starfa í faginu án þess að hafa sveins- eða meistarapróf.  

Í fréttinni segir að lítið sem ekkert eftirlit sé með löggiltum iðngreinum af hálfu stjórnvalda. FÍS sé þó aðili að Samtökum iðnaðarins sem reki málin fyrir félagið, til dæmis með því að leggja fram kærur til viðkomandi stjórnvalds. Þegar Rebekka er spurð hvort slíkt hafi leitt til þess að stofur hætti í rekstri svarar hún:„Einhverjir hafa hætt rekstri en hvort það sé bein tenging þar á milli get ég ekki sagt til um. En við fylgjum málum alltaf eftir og það er mjög misjafnt hvernig það fer.“ 

Má ekki starfa í faginu nema með sveins- eða meistarapróf

Þá segir í frétt Morgunblaðsins að dæmi séu um að boðið sé upp á námskeið sem ætlað sé að koma í stað sveins- eða meistaraprófs. „Boðið er upp á alls konar námskeið þar sem fólk getur fengið eins konar diplóma í því sem við erum að gera og höfum lagt okkur mikið fram við að mennta okkur í. Snyrtifræðingar leggja sig fram við að öðlast þekkingu og færni með viðurkenndu námi sem er líka með sveinsprófi. Þetta er lögvernduð iðngrein og fólk má samkvæmt því ekki starfa í faginu nema það hafi sveins- eða meistarapróf, nema það starfi undir faglærðum.“ 

Alltaf verið vandamál með ólöglega starfsemi

Jafnframt segir Rebekka í Morgunblaðinu að vandamálið hafi verið viðloðandi greinina svo árum skiptir en hún hafi ekki tölu á málum sem hafi komið á borð félagsins það sem af sé ári. „Eftir að ég settist í stjórn þessa félags hafa alltaf verið vandamál með ólöglega starfsemi á okkar borði. Eitt af markmiðum okkar hjá FÍS er að vinna gegn þessari starfsemi en við lendum oft á vegg í kerfinu.“ 

Hvetja stjórnvöld til að bæta úr eftirliti með lögvernduðum iðngreinum

Í frétt Morgunblaðsins segir auk þess að lítið sem ekkert eftirlit sé með lögvernduðum iðngreinum. „Við höfum verið að hvetja stjórnvöld til þess að bæta úr því. Við höfum minnt á það svo árum skiptir.“ Þar segir einnig að ábendingarnar komi frá faglærðum og neytendum en félagið geri sitt besta til þess að koma þeim í réttan farveg. „Við hvetjum neytendur til þess að vera vakandi fyrir því og velja faglega og löglega þjónustu. Það er mjög auðvelt að spyrja viðkomandi og fá að sjá tiltekin bréf sem eiga að vera sýnileg á viðkomandi stofu.“

Morgunblaðið / mbl.is, 28. ágúst 2023. 

You may also like