TILKYNNING Hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 frá hádegi 31. júlí nk.

by FÍSF

Á hádegi þann 31. júlí næstkomandi taka gildi hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 sem standa í tvær vikur, út 13. ágúst nk. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt. Hertar aðgerðir fela meðal annars í sér:

• Takmörkun á fjölda sem kemur saman miðast við 100 einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

• Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

• Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að uppfylla kröfur sem settar eru fram í leiðbeiningum sóttvarnalæknis.

• Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.

• Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi tryggi aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa, sinni vel þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er og minni almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum.

• Sundlaugar og veitingastaðir tryggi að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.

• Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

• Sóttvarnalæknir leggur til að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

• Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verður áfram til kl. 23:00.

You may also like