Hagnýtt rekstrar- og viðskiptanám sem er sérstaklega
sniðið að einstaklingum á vinnumarkaði
Í haust hefst kennsla í rekstrarfræði við Iðn- og tæknifræðideild Háskólans í
Reykjavík. Námið er byggt á gömlum grunni en hét áður rekstrariðnfræði og
var aðeins fyrir iðnfræðinga. Nú hefur námið verið opnað fyrir fleirum og
hentar m.a. iðnmenntuðum vel.

Einstaklingar með iðnmenntun, starfsreynslu og þekkingu á rekstri fyrirtækja, eru eftirsóttir í
atvinnulífinu. Iðn- og tæknifræðideild HR býður upp á diplómanám í rekstrarfræði sem er stutt og
hagnýtt rekstrar- og viðskiptanám, sérstaklega sniðið að einstaklingum á vinnumarkaði.
Rekstrariðnfræði hefur verið kennd í mörg ár í HR en með öðru sniði. Þá var það framhaldsnám fyrir
þá sem höfðu lokið iðnfræðinámi við HR en nú er rekstrarfræði hagnýtt diplómanám sem er opið
fleirum en aðeins þeim sem eru með diplómagráðu í iðnfræði.
Hagnýt og raunhæf verkefni
Í diplómanáminu hljóta nemendur almenna þekkingu og skilning á undirstöðuatriðum í fjármálum
fyrirtækja, hagfræði, fjármálastjórn, rekstrargreiningu, nýsköpun og stofnun fyrirtækja og
mannauðsstjórnun. Lögð er megináhersla á að nemendur vinni hagnýt, raunhæf verkefni sem byggja
á þekkingu kennara úr atvinnulífinu og auka hæfni nemenda á þessum sviðum.
Námið er þrjár annir að lengd, og kennt er í fjarnámi með staðarlotum sem gerir nemendum kleift að
stunda námið samhliða vinnu.
Fyrir hverja er námið?
Námið nýtist á flestum sviðum atvinnulífsins. Það hentar vel þeim sem vilja auka færni sína í stjórnun
og rekstri almennt og er jafnframt tilvalið fyrir þá sem eru í fyrirtækjarekstri eða hyggjast fara út í
rekstur.
Inntökuskilyrði eru að hafa lokið einu af eftirfarandi:
 meistaraprófi í iðngrein
 diplómaprófi í iðnfræði
 BSc-gráðu
 eða hafa að lágmarki fimm ára reynslu af rekstri fyrirtækis (umsóknir þeirra einstaklinga
verða metnar sérstaklega).
Nánari upplýsingar um skipulag námsins, kennara og fleira er að finna á vef HR:
https://www.ru.is/grunnnam/idnfraedi/rekstrarfraedi/
Nánari upplýsingar veitir:
Vilborg Hrönn Jónudóttir, verkefnastjóri hjá Iðn- og tæknifræðideild, 599-6255, vilborg@ru.is

Categories: Almennt